Hvað er sýklasótt?

Sýklasótt (sepsis) er lífshótandi ástand sem getur skapast af völdum of kröftugs svars ónæmiskerfisins við alvarlegri sýkingu. Sýklasótt er afleiðing þess að sýking hefur dreift sér um líkamann, og hefur áhrif á mikilvæg líffæri eins og hjarta, lungu og nýru. Sýklasótt byrjar oftast með staðbundinni sýkingu, til dæmis lungnabólgu, sárasýkingu eða þvagfærasýkingu.

Hvernig byrjar sýklasótt?

Þegar fólk fær sýkingu einhvers staðar virkjast ónæmiskerfi líkamans og vinnur að því að kveða hana niður. Stundum verður svar ónæmiskerfisins of öflugt, eða óviðeigandi á einhvern hátt, þannig að í stað þess að vinna eingöngu á staðbundnu sýkingunni fer það að hafa skaðleg áhrif á önnur líffæri. Hægt er að líkja þessu við að ef óvinir réðust inn í Ísland, og svar okkar við því yrði að sprengja kjarnorkusprengju yfir landinu. Vissulega myndi það útrýma óvininum, en einnig okkur sjálfum. Sýklasótt byrjar oftast með staðbundinni sýkingu, til dæmis lungnabólgu, sárasýkingu eða þvagfærasýkingu. Fólk getur einnig fengið sýklasótt í kjölfar sýkinga eftir skurðaðgerðir. Um það bil 70% af öllum sýklasóttartilfellum byrja heima en 30% koma upp inni á sjúkrahúsum. 

Hvað gerist í líkamanum?

Þegar ónæmiskerfi líkamans bregst of kröftuglega við sýkingu losna skaðleg efni út í blóðrásina. Þetta veldur því að æðakerfið fer að leka vökva, ekki ósvipað og garðslanga með smáum götum. Afleiðingin er að blóðþrýstingur lækkar og blóðrásin á erfitt með að flytja nægilegt súrefni til mikilvægra líffæra eins og hjartans, heila, lungna, nýrna og lifrar, sem geta skaddast og starfsemi þeirra truflast. Þetta ástand kalla læknar líffærabilun. Þegar blóðrásin á erfitt með að flytja nægilegt súrefni fer hjartað að slá kröftuglega og fólk getur upplifað hraðan hjartslátt. Mæði er annað algengt einkenni og er merki um að líkaminn sé að reyna að auka súrefnisupptöku. Í sumum tilfellum af sýklasótt hafa bakteríur frá staðbundnu sýkingunni dreift sér inn í blóðrásina, en þó er með nútíma aðferðafræði eingöngu hægt að sýna fram á bakteríur í blóðinu í 20% tilfella. 

Hægt er að lýsa sýklasótt sem allsherjar ónæmissvari í öllum líkamanum.

Bakteríur valda um það bil 90% af öllum sýklasóttartilfellum en það er vel þekkt að ákveðnar veirur, til dæmis inflúensuveirur (spænska veikin, fuglaflensan, svínaflensan), kórónuveirur (SARS, MERS og Covid-19 sjúkdómurinn) og Puumaalaveirur get gefið svipaða sjúkdómsmynd, sem kölluð er almennt bólguviðbragð (systemic inflammation). Allir sýklar (bakteríur, sveppir, frumdýr og veirur) geta valdið sýklasótt, nái þeir að espa ónæmiskerfið nægilega mikið. 

Tíminn er mikilvægur

Tími skiptir máli í sýklasótt. Hver klukkustund án greiningar og meðferðar getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Því fyrr sem fólk kemst undir læknishendur því betri eru líkurnar á að allt fari vel. Ef þú telur þig vera með sýklasótt skaltu ekki hika heldur leita þér strax hjálpar. Ekki vera feimin/n að spyrja heilbrigðisstarfsfólk: Getur þetta verið sýklasótt?

Áhættuhópar

Sýklasótt getur lagst á hvern sem er. Algjörlega heilbrigt fólk getur fengið hana í kjölfar til dæmis inflúensu, þvagfærasýkingar eða sárasýkingar. Hins vegar eru ákveðnir hópar í aukinni áhættu á að fá sýklasótt:

  • Aldraðir og fjölveikir
  • Fólk með sykursýki og lifrarsjúkdóma
  • Einstaklingar sem hafa undirgengist líffæraígræðslu
  • Krabbameinssjúklingar, sérstaklega meðan á meðferð stendur
  • Einstaklingar með sjúkdóma í ónæmiskerfinu
  • Þeir sem hafa nýlega gengist undir skurðaðgerð
  • Ófrískar konur og þær sem nýlega hafa fætt
  • Nýfædd börn

Lærðu að þekkja sýklasótt.

Lesið meira um sýklasótt hjá börnum hérna.