Sýklasótt hjá börnum

sepsis hos barn

Sýklasótt er sjaldgæfari hjá börnum en fullorðnum. Algengust er hún hjá nýfæddum fyrirburum. Tilfellum sýklasóttar hjá börnum hefur fækkað á undanförnum árum eftir að farið var að bólusetja fyrir bakteríunum Haemophilus influenzae B og Streptococcus pneumoniae.

Sýklasótt í börnum getur komið í tengslum við heilahimnubólgu, en einnig við aðrar sýkingar. Börn með hlaupabólu geta til dæmis smitast af streptókokkabakteríunni í gegnum sárin frá bólunum. Það er ekki hlaupabólan sjálf sem veldur sýklasótt, heldur gerir hún börnin viðkvæmari fyrir bakteríusýkingu.

Einkenni sýklasóttar og/eða heilahimnubólgu í börnum:

  • Barnið virðist mjög lasið og meðtekið.
  • Barnið er með hita.
  • Barnið er þreytt og þú nærð litlu sambandi við það.
  • Barnið grætur mikið og er vansælt.
  • Barnið andar hratt og með erfiðleikum.
  • Barnið drekkur lítið sem ekkert, tekur illa brjóst.
  • Húðlitur barnsins er fölur.
  • Hendur og fætur eru svöl viðkomu.
  • Barninu er illt í útlimum eða maga.
  • Barnið hefur upppköst eða niðurgang.
  • Barnið er með húðblæðingar (útbrot sem hvítna ekki þegar þrýst er á þau).
  • Barnið er með höfuðverk og stíft í hálsi, það á erfitt með að beygja höfuðið fram.

Því fleiri einkenni sem barnið sýnir, því meiri líkur eru á sýklasótt. Börn geta þó fengið sýklasótt án þess að hafa hita. 

Hiti er alltaf alvarlegt einkenni hjá börnum yngri en eins mánaðar og getur verið alvarlegt teikn hjá börnum milli eins og sex mánaða og verið merki um sýklasótt.

Verki ber alltaf að meðhöndla en meðferð með hitalækkandi lyfjum er ekki alltaf nauðsynleg. Börn geta verið með sýklasótt þó að þau verði tímabundið hressari af hitalækkandi og verkjastillandi lyfjum. 

Rannsóknir og meðferð

Meðferð barna við sýklasótt er sú sama og fullorðinna. Þau gangast undir sömu rannsóknir og fullorðnir en í vissum tilvikum er einnig nauðsynlegt að taka mænuvökva til skoðunar. Kallast það mænuástunga. Ástæða er að sýklasótt hjá börnum tengist í vissum tilfellum heilahimnubólgu.